Innlent

Ofbeldisfullir unglingar við Hlíðaskóla

Óli Tynes skrifar

Nokkrir unglingar sem komu með bolabít inn á frístundaheimili Hlíðaskóla í dag jusu svívirðingum yfir starfsfólk og réðust á húsvörð, þegar reynt var að fá þá til þess að fara.

Elísabet Ragnardóttir, umsjónarmaður frístundaheimilisins sagði í samtali við Vísi að ofsinn hefði verið svo mikil að hún hefði óttast að vera drepin.

Unglingarnir eru um 15 ára gamlir og talið að tveir þeirra séu nemendur við skólann. Þeir komu inn á frístundaheimilið þar sem Elísabet var með stóran hóp af börnum á aldrinum sex til níu ára. Þar bundu þeir bolabítinn og stóðu og reyktu.

Elísabet bað þá um að fara með hundinn og þá upphófust svívirðingarnar. Elísabet sagði að hún hafi lengi unnið með börnum og unglingum og aldrei upplifað aðra eins framkomu. Húsvörður kom á vettvang og reyndi einnig að fá unglingana til þess að fara.

Þeir svöruðu honum með sömu svívirðingum. Þegar hann reyndi að hringja í lögregluna slógu þeir símann úr höndum hans.

Annar starfsmaður sem varð vitni að þessu hringdi þá í lögregluna sem kom fljótt á vettvang og fékk unglingana á brott.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvort þarna verður einhver eftirmáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×