Sannkölluð körfuboltaveisla verður á NBA TV og Stöð 2 Sport í nótt þegar hægt verður að sjá tvo stórleiki úr úrslitakeppni NBA deildarinnar í beinni útsendingu.
Fjörið hefst með sjötta leik Cleveland og Boston á miðnætti á NBA TV sjónvarpsrásinni á Fjölvarpinu og strax að honum loknum, eða um klukkan 02:30 í nótt, er komið að sjötta leik Utah og LA Lakers sem sýndur verður beint á Stöð 2 Sport.
Boston og Lakers eru yfir 3-2 í rimmunum og geta því tryggt sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar með sigri í nótt. Bæði lið eru á útivöllum í nótt og hafa ekki náð að sigra þar enn sem komið er í annari umferðinni.
Lifandi umræður verða í gangi á meðan leikirnir standa yfir á NBA Blogginu hér á Vísi.