Erlent

Hætta á borgarastyrjöld í Líbanon

Guðjón Helgason skrifar

Hætta er á að borgarastyrjöld brjótist aftur út í Líbanon. Hizbollah-skæruliðar hafa lagt undir sig megnið af höfuðborginni Beirút.

Líbanar hafa verið forsetalausir frá 23. nóvember í fyrra. Ríkisstjórnin og stjórnarandstöðuþingmenn Hizbollah-samtakanna hafa ekki getað komið sér saman um hver eigi að gegna embættinu.

Til átaka kom á götum úti í höfuðborginni milli Hizbollah liða og stuðningsmanna stjórnvalda á miðvikudaginn þegar yfirvöld lýstu því yfir að síma- og sjónvarpsþjónustu samtakanna væri ógn við öryggi í landinu.

Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, sagði það jafngilda stríðsyfirlýsingu.

Hizbollah liðar svöruðu með því að hertaka sjónvarpsstöð í eigu bandamanna ríkisstjórnarinnar og skrúfa fyrir útsendingar. Þeir lögðu einnig elda að höfuðstöðvum dagblaðs í eigu þeirra sömu.

11 hið minnsta hafa fallið, aðallega almennir borgarar. Tugir hafa særst.

Í morgun var svo ljóst að Hizbollah liðar hefðu völdin í nær allri Beirútborg sem þeir hafa síðan lokað með vegatálmum.

Ráðamenn í Líbanon segja þetta valdarán sem miði að því hleypa Sýrlendingum eftur inn í landið.

Ráðamenn í Damaskus kölluðu herlið sitt heim frá Líbanon 2005 og hafa ætíð neitað því að þeir hafi haft eða reyni að hafa áhrif á stjón mála í landinu.

Borgarastyrjöld geisaði síðast í Líbanon á árunum 1975 til 1990. Sýrlendingar og Ísraelar drógust inn í þau átök sem kostuðu fjölmörg mannslíf. Herinn hefur enn ekki blandast í átökin nú og verði svo áfram gæti það komið í veg fyrir aðra borgarastyrjöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×