Erlent

Sökkti fúsk Titanic?

Óli Tynes skrifar
Titanic átti ekki að geta sokkið.
Titanic átti ekki að geta sokkið.

Enn ein samsæriskenningin um Titanic hefur nú litið dagsins ljós. Tveir bandarískir rithöfundar hafa sent frá sér bók sem þeir segja að ljóstri upp um hina raunverulegu ástæðu þess að skipið sökk á svona skömmum tíma.

Og ástæðan er sögð sú að skipasmíðastöðin hafi notað ódýrt og lélegt járn í hnoðnaglana sem héldu Titanic saman.

Jennifer Hooper McCarty og Tim Foecke segja að það hafi verið ástæðan fyrir því að borgarísjakinn risti svo stórt gat á skrokk skipsins að það sökk á aðeins þrem klukkustundum.

Höfundarnir segja að írska skipasmíðastöðin Harland og Wolff hafi verið að sligast undir risaverkefni sem það tók að sér fyrir skipafélagið White Star Line.

Stöðin átti á aðeins nokkrum árum að smíða þrjú stærstu farþegaskip heims, Titanic, Olympic og Gigantic. Vegna erfiðleikanna hafi verið gripið til þess óyndisúrræðis að spara með því að nota lélegt járn í hnoðnaglana.

Harland og Wolff skipasmíðastöðin í Belfast segir að þessi samsæriskenning sé út í hött. Í gær voru 96 ár liðin frá því Titanic fórst. Með skipinu fórust 1517 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×