Viðskipti erlent

Óbreyttir stýrivextir á evrusvæðinu

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans. Mynd/AFP

Evrópski seðlabankinn ákvað um hádegisbil í dag að halda stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í 4 prósentum. Þetta er í samræmi við spár en þvert á vaxtaþróunina í Bandaríkjunum og í Kanada. Þar hafa seðlabankar lækkað vextina umtalsvert í kjölfar lausafjárþurrðar og hrakspár um hugsanlegan efnahagssamdrátt. Þá hafa Bretar sömuleiðis lækkað stýrivexti af sömu sökum þrátt fyrir að hafa ákveðið að halda þeim óbreyttum í dag.

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, gerir grein fyrir ákvörðun bankastjórnarinnar í dag og munu markaðsaðilar fylgjast með hver næstu skref bankans verði.

Helsta ástæðan fyrir ákvörðuninni er talin vera aukin verðbólga, sem mældist 3,2 prósent í janúar. Á móti stendur gengi evru í hæstu hæðum gagnvart helstu gjaldmiðlum, ekki síst bandaríkjadal sem er í sögulegum lægðum gagnvart evru, og er útlit fyrir að það geti komið niður á útflutningsfyrirtækjum á evrusvæðinu, að sögn fréttastofu Associated Press.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×