Viðskipti erlent

Varnaðarorðin voru of lágvær

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mynd/AFP

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn brást líklega of seint við vísbendingum um undirmálskreppuna og hefði átt að brýna raust sína. Þetta segir Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann tekur undir með seðlabankastjórum beggja vegna Atlantsála að lítill hagvöxtur á móti verðbólguþrýstingi séu áhættuþættir.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir framkvæmdastjóranum að ekki eigi að finna sökudólginn heldur reyna að leysa úr vandanum og horfa til framtíðar. Strauss-Kahn settist í stól framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í september í fyrra en þá hafði undirmálslánakreppan þegar bitið fast í afkomu banka og fjármálafyrirtækja víða um heim.

Sjóðurinn birti efnahagshorfur sínar fyrr í vikunni en þar kemur fram að nokkuð muni hægja á hagvexti víða um heim næstu tvö ár. Af einstökum löndum muni Bandaríkin fá snert af samdráttarskeiði, en þó vægu, að hans mati.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×