Körfubolti

Brynjar Þór til Bandaríkjanna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Þór (4) fagnar hér með sínum mönnum í KR.
Brynjar Þór (4) fagnar hér með sínum mönnum í KR.

KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson mun leika í bandaríska háskólaboltanum næstu fjögur árin en hann hefur þegið skólastyrk frá High Point-háskólanum í Norður-Karólínuríki.

Brynjar er að útskrifast með stúdentspróf nú í vor en hann hefur þrátt fyrir ungan aldur gegnt mikilvægu hlutverki í liði KR undanfarin ár. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra.

Lið High Point, Panthers, spilar í efstu deild NCAA-háskólaboltans í Big South-riðlinum. Í sama riðli leikur Birmingham Southern sem Jakob Sigurðarson, annar KR-ingur, lék með á sínum tíma.

Brynjar sagði í samtali við heimasíðu KR að þetta hafi allt gerst mjög hratt. „Ég heyrði fyrst frá þeim fyrir viku síðan. Svo kom tilboðið í gær (í fyrradag) og ég samþykkti það í dag (í gær). Varðandi nám þá finnst mér mest spennandi að fara í verkfræði eða viðskiptafræði."

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, var honum innan handar í þessu máli og var ánægður fyrir hans hönd.

„Eftir tímabilið fannst mér Brynjar þurfa að skipta um umhverfi, hann var aðeins farinn að staðna og þetta er frábær leið til að sinna námi og körfubolta," sagði Benedikt við heimasíðu KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×