Geir Haarde forsætisráðherra segir ástæðulaust fyrir fólk að óttast um innistæður sínar í Glitni. Á fundi í Stjórnarráðinu í dag sagði Geir að Glitnir, sem ríkið hefur keypt 75 prósent í, væri vel rekinn banki sem hafði lent í vandræðum vegna alþjóðlegra markaðsaðstæðna. Hann sagði að ekki væri við stjórn eða starfsfólk bankans að sakast.
Forsætisráðherra vakti athygli á ábyrgð ríkisvaldsins í þessari stöðu og sagði að ákvörðunin um að kaupa Glitni hefði verið tekin til þess að koma ró á fjármálamarkaðinn. Hann sagði einnig að ef vel gengi í rekstrinum myndi ríkið losa sig við hlutinn sem fyrst og vonaðist hann til þess að ríkið hefði af því einhvern arð.
Geir vakti athygli á erfiðri stöðu banka víða um heim og sagði hann að aðgerðin í morgun hefði verið gerði til þess að koma í veg fyrir að Glitnir lenti í þroti. Hann ítrekaði að ástæðulaust væri fyrir viðskiptavini Glitnis að óttast um innistæður sínar.
Hann sagði jafnframt að ekki væri nauðsyn á því að setja lög um gjörninginn. Lagaheimildir Seðlabankans væru nægar til að grípa til aðgerðar af þessu tagi. Aðspurður hvort einkavæðing bankanna á sínum tíma hefðu verið mistök sagði Geir svo ekki vera. Hann benti einnig á að Glitnir hefði að stærstum hluta aldrei verið í eigu ríkisins.
Forsætisráðherra sagði að lokum að ekki væri búist við því að til samskonar aðgerða þurfi að grípa gagnvart Kaupþingi og Landsbankanum. Þegar hann var spurður hvort ríkið hefði bolmagn til þess konar aðgerða, þyrftu þær að koma til, sagði Geir að það færi eftir umfangi þeirra.