Seðlabanki Tyrklands hækkaði stýrivexti sína um 0,50 prósentustig á mánudaginn í 16,5 prósent.. Stýrivextir eru nú hvergi hærri meðal þeirra ríkja sem hafa þróaða fjármálamarkaði, segir greining Glitnis.
,,Þetta er í annað skiptið í röð sem Seðlabanki Tyrklands hefur hækkað vexti sína en í maí batt bankinn enda á það vaxtalækkunarferli sem hófst í september síðastliðnum. Í kjölfar vaxtahækkunar dregur meira á milli vaxtastigs í Tyrklandi og á Íslandi en um tíma hafði Ísland náð hinum vafasama titli af Tyrklandi að hafa hæstu stýrivexti þeirra ríkja sem hafa þróaða fjármálamarkaði. Ísland vermir nú annað sætið á listanum en Brasilía það þriðja þar sem vextir standa í 12,25%, segir greining Glitnis.
Seðlabanki Tyrklands útilokar ekki frekari hækkanir stýrivaxta. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 11 prósent í Tyrklandi.