Viðskipti erlent

Ágæt byrjun á evrópskum fjármálamörkuðum

Miðlarar í samnorrænum kauphallarsamstæðu OMX.
Miðlarar í samnorrænum kauphallarsamstæðu OMX.

Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað á helstu hlutabréfamörkuðum í Evrópu í dag þrátt fyrir skell bæði í Bandaríkjunum í gærkvöldi og í Asíu í morgun.

Helsta ástæðan fyrir lækkun á mörkuðum vestanhafs í gær er snörp verðhækkun á hráolíuverði, sem fór í methæðir, rúma 129 dali á tunnu, og aukinn verðbólguþrýstingur.

Dow Jones-vísitalan lækkaði á endanum um 1,53 prósent og Nasdaq-vísitalan um 0,95 prósent. Þessar væntingar auk vísbendinga um auknar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjum ollu því að Nikkei-vísitalan lækkaði um 1,65 prósent.

Það sem af er degi hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 0,95 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi um 0,36 prósent og Cac 40-vísitalan í Frakklandi um 0,46 prósent. Kippur hefur sömuleiðis verið á norrænum mörkuðum. Mesta hækkunin það sem af er degi er í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi en aðalvísitalan þar í landi hefur hækkað um 0,35 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×