Íslenski boltinn

Guðjón stendur við ummæli sín

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson ræðir málin á hliðarlínunni.
Guðjón Þórðarson ræðir málin á hliðarlínunni.

Guðjón Þórðarson sagði í samtali við Vísi að hann standi heilshugar við þau ummæli sem hann lét falla eftir leik Keflavíkur og ÍA í gær.

Guðjón, sem er þjálfari ÍA, sagði að Ólafur Ragnarsson dómari hafi beitt Stefán Þórðarson ofbeldi með því að reka hann af velli í leiknum. Hægt er sjá ummæli hans og brotin með því að smella á fréttirnar hér að neðan.

„Það hefur ekkert breyst hvað mig varðar, ég stend við það sem ég sagði," sagði Guðjón. Spurður hvort ÍA muni áfrýja dómnum sagði Guðjón að ákvörðun um það yrði tekin síðar í dag.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi í morgun að hann muni senda ummæli Guðjóns til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

„Það er sérstakt að þeir haldi að dómgæslan muni batna með því að senda mín mál til aganefndar, það er ansi sérstök nálgun," sagði Guðjón.

Hann sagði einnig að dómarar hefðu fundað sérstaklega um Skagaliðið og tekið Stefán Þórðarson fyrir á fundinum. Hann stendur enn við þau orð.

„Auðvitað þvertaka þeir (forráðamenn KSÍ og dómarar) fyrir það að þessi fundur hafi átt sér stað. En þessi fundur fór fram þar sem þeir fjölluðu sérstaklega um það hvernig þeir eiga að takast á við Skagann."

Stefán fékk tvívegis að líta gula spjaldið í leiknum. „Hann (Ólafur Ragnarsson dómari) getur sjálfsagt haft eitthvað til síns máls með því að gefa Stebba spjald fyrir fyrra brotið. En það var engu að síður enginn ásetningur af hálfu Stefáns í þessu broti. Stefán er að pressa á Guðmund Viðar Mete sem sparkar í boltann og fer svo í hnéð á Stefáni. Guðmundur leggst svo í grasið en þegar spjaldið er komið á loft stendur hann upp og tekur aukaspyrnuna. Honum var ekki meira illt en það."

Guðjón segir ekkert hæft í því að hann sé að taka út gremju vegna tap sinna manna á dómurunum.

„Nú segja margir að kallinn sé vitlaus því hann tapaði en ég tapaði fyrir FH líka og hef ekkert út á þann leik að setja. Mér svíður það að menn séu ekki að njóta réttlætis. Það er ekki heiðarlegt."


Tengdar fréttir

Stefán Þór: Ég fór í boltann

Stefán Þór Þórðarson segir engan vafa leika á því að hann hafi farið í boltann þegar hann fékk síðara gula spjaldið sitt í leik ÍA og Keflavíkur í gær.

Átti Stefán spjöldin skilið? (myndband)

Stefán Þórðarson fékk tvívegis að líta gula spjaldið í leik Keflavíkur og ÍA í gær og þar með það rauða, Skagamönnum til mikillar gremju.

Ólafur: Guðjón er að bulla

Ólafur Ragnarsson dómari segir ekkert hæft í ásökunum Guðjóns Þórðarsonar í sinn garð né heldur annarra dómara.

Guðjón: Þeirra er skömmin (myndband)

Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, var ómyrkur í máli gagnvart Ólafi Ragnarssyni dómara og forystumönnum KSÍ í viðtali við Stöð 2 Sport í gær.

Þórir: Málið í aganefnd

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, mun skjóta ummælum Guðjóns Þórðarsonar til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×