Innlent

Kynntu sér kosti íslenska hestsins

Krónprins Friðrik og Mary krónprinsessa brugðu sér á hestbak í Dallandi við Hólmsheiði í morgun en þau munu bæði vera hestafólk.

Með í för voru meðal annars íslensku forsetahjónin og danskt fjölmiðlafólk sem hreifst mjög af því hvað íslenski hesturinn er þýðgengur á tölti. Tvær stúlkur sýndu það á áhrifaríkan hátt þegar þær riðu með barmafull bjórglös án þess að dropi skvettist niður. Einnig var sett upp hrossasýning og síðan var haldið að Nesjavöllum þar sem jarðorkuverið var skoðað.

Bjórinn hreyfðist vart á töltinu.MYND/Stöð 2

Þessa stundina eru hinir tignu gestir að ganga niður Almannagjá undir traustri leiðsögn doktors Sigurðar Líndal, en í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum, sem áður var kallaður Þingvallabærinn, bíða gestanna rjúkandi krásir í boði Geirs H. Haarde og Ingu Jónu Þórðardóttur konu hans.

Að borðhaldi loknu verður haldið að Gullfossi og Geysi en dagskránni í dag lýkur með heimsókn í Eyrarbakkakirkju en Kristján níundi gaf altaristöfluna sem þar er. Svo verður haldið í sjálft Kaupmannshúsið eða Húsið eins og það kallast nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×