Heilsa

Leynivopnin í eldhúsinu

Guðrún Möller segir nauðsynlegt að eiga góð áhöld í eldhússkúffunum.
Guðrún Möller segir nauðsynlegt að eiga góð áhöld í eldhússkúffunum.

„Ég er nú enginn snillingur í eldhúsinu, það er alveg vitað mál, en ég veit þó að góðir hnífar eru nauðsynlegir,“ segir Guðrún Möller, framkvæmdastjóri Snyrtiakademíunnar, þegar hún er innt eftir því hvaða leynivopn hún eigi sér í eldhúsinu.

„Maður þarf að eiga góðan brauðhníf og góðan hníf til að skera kjúklingabringurnar. Svo finnst mér líka, þegar verið er að borða góðan mat, að það verði að nota almennilega steikarhnífa til að komast í gegn.“

En ætli Guðrún forðist eldamennskuna fyrst hún gerir svo lítið úr hæfileikum sínum í eldhúsinu?

„Nei, ég elda nú alveg en ég fengi kannski ekki hæstu einkunn fyrir matinn,“ segir hún hlæjandi. „Ég elda voða mikið venjulegan heimilismat. Við borðum mikinn fisk og svo góða kjúklingarétti. Þeir eru í uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Ég er samt ekki dugleg að prófa mikið nýtt og þarf svolítið að fara eftir uppskriftum. Ég get ekki bara sett slettu af þessu og slettu af hinu út í, því miður. En mér finnst gaman að elda þegar ég er komin af stað. Það er skelfilegt að þurfa að ákveða hvað á að vera í matinn en ef einhver sæi um það fyrir mig gæti ég alveg klórað mig fram úr því sem á að gera.“

Það verður ekki hjá því komist að spyrja um jólabaksturinn þegar alltaf styttist í jólin og Guðrún segist hafa gaman af því að baka.

„Ég var dugleg að baka og er duglegri í því en við eldamennskuna. Ég baka alltaf brúna lagtertu fyrir jólin og kannski tvær, þrjár smákökutegundir. Þá nota ég uppskriftir sem hafa gengið í minni fjölskyldu síðan ég man eftir mér.“ Innt eftir uppáhaldsmatnum sínum segist hún ekki eiga neitt uppáhald. „Mamma gerir samt góða aspassúpu og tengdapabbi gerir frábærar fiskibollur.“ heida@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.