Tónlist

Syngjum saman með Ragga Bjarna

Leigir Laugardalshöll á næsta ári.
Raggi Bjarna gerir plötu fyrir alla.
Leigir Laugardalshöll á næsta ári. Raggi Bjarna gerir plötu fyrir alla.

„Jú, ég er að vinna í plötu sem ég hef lengi ætlað að gera en hef aldrei komist í því ég var að vinna í einhverjum öðrum plötum!" segir Raggi Bjarna um væntanlega plötu sína. „Þetta er svona „sing-a-long" plata, gömul lög með íslenskum textum, lög sem allir þekkja og geta sungið með uppi í bústað eða á jólunum eða hvar sem er. Ætli ég láti hana ekki bara heita „Syngjum saman með Ragga Bjarna"."

Sum lögin voru menn eins og Alfreð Clausen, Haukur Morthens og Óðinn Valdimarsson með á sínum tíma en aðeins eitt hefur Raggi sjálfur tekið áður: „Það heitir „Hvar er bruninn" og er tileinkað slökkviliðinu," segir söngvarinn. „Ég söng það með Sextett Svavars Gests á sínum tíma. Það er með sírenum og öllu."

Raggi segir valinkunna söngvara syngja með honum á nýju plötunni, meðal annars Bjarna Ara. Það styttist til jóla. „Ætli ég þurfi ekki að að syngja þetta allt inn á einum degi eins og í gamla daga," gantast Raggi.

Raggi verður 75 ára á næsta ári og má búast við ýmsum uppákomum á afmælisárinu. Styttu kannski? „Nei, vonandi ekki styttu," segir Raggi og hlær. „En það er meiningin að leigja Laugardalshöll og læti. Þorgeir Ástvalds og dóttir hans eru að búa til yfirlitsmynd. Þau hafa úr nógu efni að moða. það eru til alveg fleiri plastpokarnir af efni."

- drg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×