Erlent

Leita að fjársjóði Musterisriddaranna undir kirkju á Borgundarhólmi

Skemmdarverk hafa ítrekað verið unnin á lítilli kirkju á Borgundarhólmi. Þar eru menn að leita að horfnum fjársjóði Musterisriddaranna.

Um er að ræða hina hringlöguðu Österlarskirkju en borað hefur verið í gegnum flísagólf hennar í tvö skipti með stuttu millibili. Þeir sem þar hafa staðið að verki telja einhvern sannleik í kenningum um að í hvelfingu undir kirkjunni sé að finna hin týnda fjársjóð Musterisriddarana sem hvarf í upphafi 14du aldar er reglan var leyst upp.

Meðal þeirra sem sett hafa fram kenninguna um komu Musterisriddarana til Borgundarhólms er rithöfundurinn Erling Haagensen. Hann er þó ekki þeirrar skoðunar lengur að fjársjóð reglunnar sé að finna undir kirkjugólfinu. Hann segir að ef fjársjóðurinn er á Borgundarhólmi sé hann vissulega ekki falin á jafnaugljósum stað og undir kirkjugólfi. Hann vill hinsvegar að það sé rannsakað hvort hvelfing sé undir gólfinu og þá hvað hún geymi.

Þess má í lokin geta að ítalskur auðjöfur telur að umræddan fjársjóð Musterisriddarana sé grafinn hér á Íslandi, það er upp á Kili og ætlar sér að rannsaka það nánar í sumar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×