Ástralinn Mark Webber átti að vera meðal keppenda í meistaramóti ökumanna Wembley 14. desember. Hann átti að vera í úrvali Formúlu 1 ökumanna í mótinu, en hann fótbrotnaði í dag í Ástralíu í þríþrautarkeppni sem hann tók þátt í. Webber lenti framan á bíl á reiðhjóli.
Meistaramótið á Wembley er endapunkturinn á tímabili akstursíþróttamanna og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Webber fór í uppskurð í dag og þurfti að negla saman brotið. Hann getur því ekki ekið á Wembley, en talsmenn Red Bull sögðu í dag að hann yrði klár í slaginn fyrir fyrsta Formúlu 1 mót næsta árs. Fyrsta mótið er í Ástralíu í lok mars.
Í ljósi meiðslanna mun Webber lítið geta ekið á vetraræfingum keppnisliða og meira mun því mæða á nýja manninum í liðinu, Sebastian Vettel. Þá er líklegt að Sebastian Buemi aki meira en ella, en hann hefur verið þróunarökumaður liðsins. Reyndar er Torro Rosso að skoða hvort Buemi verður ráðinn til liðsins.