Viðskipti erlent

Þrengir að breskum byggingafyrirtækjum

Hús til sölu.
Hús til sölu. Mynd/AFP

Breska byggingafyrirtækið Taylor Wimpey tapaði 1,54 milljörðum punda, jafnvirði rúmra 235 milljarða íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Fall á fasteigna- og lóðamarkaði í Bretlandi, Bandaríkjunum og Spáni skýrir tapreksturinn. Sé fasteignaverðmætið undanskilið afkomutölunum nam hagnaður fyrirtækisins 4,3 milljónum punda.

Á sama tíma í fyrra nam hagnaður Taylor Wimpeys 119,8 milljónum punda.

Talsverður munur er á milli landa hvar dró úr hagnaði. Þannig dróst hagnaður Taylor Wimpeys saman um 39 prósent í Bretlandi, um 63 prósent á Spáni og um 85 prósent í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið hefur brugðist við minnkandi afkomu með uppsögnum á starfsfólki og samninga við lánardrottna.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu féll um ellefu prósent á hlutabréfamarkaði í Lundúnum í Bretlandi í dag eftir að afkomutölurnar lágu fyrir. Gengi bréfa í bygginga- og fasteignafyrirtækjum hefur lækkað verulega upp á síðkastið í Bretlandi vegna þrenginga á íbúðamarkaði og minni eftirspurnar eftir húsnæði, að sögn breska ríkisútvarpsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×