Sport

Létt hjá Federer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Federer á fullu í New York í nótt.
Federer á fullu í New York í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Roger Federer komst auðveldlega í gegnum fyrstu umferðina á opna bandaríska meistaramótinu í tennis. Hann vann Maximo Gonzalez frá Argentínu í þremur settum, 6-3, 6-0 og 6-2.

Þetta er í fyrsta sinn í afar langan tíma þar sem Federer mætir ekki til leiks sem besti tenniskappi heims en hann þurfti að láta eftir efsta sætið á styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins í hendur Rafael Nadal.

Federer hefur þó unnið þetta mót undanfarin fjögur ár og á því kost á því að vinna það nú í fimmta skiptið í röð.

Fyrsta umferðin er í fullum gangi og af þeim keppendum sem var raðað í efstu 20 sætin á styrkleikalista mótsins er aðeins einn fallinn úr leik. Það er Þjóðverjinn Nicolas Kiefer sem er í 20. sæti listans.

Rafael Nadal þurfti að hafa fyrir sínum fyrsta sigri á mótinu en tókst þó að vinna Björn Phau frá Þýskalandi í þremur settum, 7-6, 6-3 og 7-6.

Í einliðaleik kvenna er fyrstu umferðinni lokið og þar kom helst á óvart að Rússinn Anna Chakvetadze féll úr leik er hún tapaði fyrir löndu sinni, Ekaterina Makarova, 6-1, 2-6 og 3-6.

Þá féll Daniela Hantuchova frá Slóvakíu einnig óvænt úr leik. Hún þurfti að játa sig sigaða fyrir Önnu-Lenu Grönefeld frá Þýskalandi, 4-6 og 2-6. Chakvetadze er í 10. sæti á styrkleikalista mótsins og Hantuchova í því ellefta.

Maria Sharapova frá Rússlandi keppir ekki á mótinu vegna meiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×