Erlent

Mikil fækkun býflugna hækkar matarverð

Dularfull fækkun hunangsbýflugna í Bandríkjunum gæti leitt til mikillar hækkunar á matarverði. Þetta helgast af því að margar landbúnaðarjurtir eru háðar því að býflugunar frjógvi þær.

"Engar býflugur þýðir engin uppskera," segir bóndinn Robert Edwards en hann gaf skýrslu nýlega um ástandið fyrir landbúnaðarnefnd fulltrúaþingsins í Bandaríkjunum. Edwards ræktar gúrkur í Norður Karólínu og uppskera hans hefur minnkað um helming vegna skorts á býflugum.

Annar bóndi, Edward Flanagan sem ræktar bláber í Michigan segir að án býflugnaiðnaðarins gæti hann þurft að tífalda verðið á afurðum sínum.

Frá árinu 2006 hafa býflugnabændur í Bandaríkjunum tapað á milli 30% og 90% af flugum í búum sínum. Vísindamenn standa ráðþrota með skýringar á þessari miklu fækkun í búunum.

Ýmsar kenningar eru á lofti allt frá skordýraeitri til áður óþekktra sníkjudýra sem herji á flugurnar. Landbúnaðarnefnd fulltrúaþingsins hefur lagt til að veitt verði allt að 10 milljónum dollara til að rannsaka þetta vandamál.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×