Innlent

Viðræður um meirihluta í Ráðhúsinu í kvöld

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, mun hitta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, í Ráðhúsinu nú klukkan átta þar sem rætt verður um meirihlutasamstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt heimildmum Vísis hefur Óskar fundað í dag með framsóknarmönnum um stuðning við það samstarf.

Dagur B. Eggertsson sagði við fréttamann Stöðvar 2 fyrr í kvöld að Óskar Bergsson hefði haft samband við sig í dag og tilkynnt að hann hygðist fara í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Bæði Dagur og Svandís Svavarsdóttir lýstu yfir vonbrigðum með ákvörðun Óskars í kvöldfréttum Sjónvarps.

Sagði Dagur að samstaða hefði verið innan minnihlutans að skrifa ekki upp á klækjastjórnmál sem sjálfstæðismenn hefðu ástundað. Taldi hann þróun mála vonda fyrir borgina og pólitíkina í heild. Sagði hann hollara fyrir sjálfstæðismenn að taka til í eigin ranni en að bjóða borgarbúum upp á þetta.

Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri - grænna, sagði fyrr í dag að yfirlýsing hefði legið fyrir um það í morgun að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segði af sér sem borgarfulltrúi og Margrét Sverrisdóttir kæmi inn til þess að mynda Tjarnarkvartettinn á ný. Óskar Bergsson hefði haft úrslitaáhrif í málinu og valið að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Jakob Frímann Magnússon, einn helsti ráðgjafi Ólafs, neitar þessu og segir Ólaf ekki hafa ætlað að hætta sem borgarfulltrúi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×