Erlent

Dagdraumar gefa vísbendingar um ástand fólks í dái

Snjóþakin grund er ekki verri staður en hver annar til að dagdreyma á.
Snjóþakin grund er ekki verri staður en hver annar til að dagdreyma á.

Vísindamenn hafa fundið leið til þess að meta hvort heilaskaðað fólk í dái muni komast til meðvitundar aftur eður ei. Hluti heilans getur haldist virkur þrátt fyrir að fólk liggi í dái og hafi skaðast á heila.

Þessi hluti heilans snýr að athygli okkar inn á við, ekki á hinn ytri heim heldur á ákveðin verkefni hverju sinni eða á hugsanir okkar. Samkvæmt vísindamönnum á virkni í þessum hluta heilans að samsvara hve mikla meðvitund fólk hefur sem hlotið hafa einhvern heilaskaða. Margir tengja þennan hluta heilans við dagdrauma.

Margar aðferðir hafa verið reyndar til þess að mæla virkni fólks með heilaskaða. Á meðan fremur einfalt er að greina þá sem eru algerlega heiladauðir er erfiðara að meta þá sem aðeins hafa hlotið nokkurn heilaskaða en eru samt án meðvitundar.

Þessar rannsóknir komu fram í ,,New Scientist magazine" en Dr Steven Laureys hjá Háskólanum í Liege í Belgíu rannsakaði 13 sjúklinga með mismikil merki um meðvitund. Hann fann út að virkni á þessum stað í heilanum var aðeins 10% minni en venjulega hjá þeim sem voru með lágmarksmeðvitund, 35% minni en venjulega hjá þeim sem voru í dái en enginn hjá heiladauðum.

Einhverjar efasemdir eru í vísindaheiminum um þessar rannsóknir en hún þykir þó áhugaverð á meðal vísindamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×