Lífið

Clint Eastwood lýkur leikferlinum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eastwood sem Dirty-Harry, kornungur.
Eastwood sem Dirty-Harry, kornungur.

Leikarinn Clint Eastwood ætlar setjast í helgan stein eftir að hann leikur í myndinni Gran Torino.

Gamla brýnið úr Dirty Harry-myndunum og hinum gamalkunnu spaghettívestrum Sergios Leone hefur lýst því yfir að eftir rúmlega fimm áratugi á hvíta tjaldinu sé nóg komið. Margir hafa farið á eftirlaun fyrr en Eastwood því hann á aðeins tvö ár í áttrætt.

Það er þó engan veginn ætlun leikarans að leggjast með tærnar upp í loft og taka sér fullkomna hvíld frá amstri dagsins því hann mun halda leikstjórnarferli sínum áfram. Síðasta myndin sem Eastwood leikur í, Gran Torino, fjallar um gamla skapstirða kempu úr Kóreustríðinu sem er annálaður kynþáttahatari og samskipti hans við nágranna sinn sem er ungur Asíubúi.

Áður en leikferill Eastwood hófst árið 1959 í sjónvarpsþáttunum Rawhide dró hann fram lífið sem starfsmaður á bensínstöð, píanóleikari á bar og skógarhöggsmaður. Heimsfrægðin kviknaði svo þegar hann steig fram á sjónarsviðið með vindilstubb í munni, hörkulegt augnaráð og ódauðlega frasa í kvikmyndinni Hnefafylli af dollurum árið 1964.

Þeir sem þekkja Eastwood persónulega halda því þó fram að bjóðist honum álitlegt hlutverk í framtíðinni sé óvíst að hann geti hafnað því enda hefur þeim gamla víst aldrei leiðst fyrir framan myndavélina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.