Innlent

Gjaldeyriskreppan leysist mögulega í næstu viku

Svo gæti farið að gjaldeyriskreppa þjóðarinnar leystist í næstu viku. Stíf fundahöld eru um allan bæ og ef niðurstaða næst um helgina, gæti peningar lífeyrissjóðanna í útlöndum verið komnir heim seinnipartinn í næstu viku.

Reiknað er með að forsætisráðherra og iðnaðarráðherra hitti meðal annarra forystumenn lífeyrissjóðanna í dag, til að ræða mögulega aðkomu þeirra að lausn vandans, en að auki er verið að leita lána hjá öllum helstu seðlabönkum heims. Almennt er búist við að stjórnvöld í samvinnu við lífeyrissjóði, verkalýðshreyfingu og samtök atvinnulífsins og fleiri muni reyna að setja saman aðgerðarpakka í efnahagsmálum um helgina.

Ekki hefur náðst í talsmenn ASÍ í morgun, en í Sætúninu sat vinnuhópur á vegum Lífeyrissjóðanna á fundi í morgun að undirbúa stóran fund með stjórnarformönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóðanna sem verður síðar í dag. Ríkisstjórnin fór þess á leit við lífeyrissjóðina á fimmtudagskvöld og síðan á fundi í gærmorgun að lífeyrissjóðirnir komi með umtalsvert fjármagn erlendis frá og inn í íslenska hagkerfið.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, segir það skilyrði að lífeyrissjóðirnir fengju góða tryggingu fyrir þessu fé. Hann segir að um lífeyrissjóðirnir eigi 500 milljarða íslenskra króna í útlöndum. Hinsvegar sé enginn að tala um alla þá upphæð, en lífeyrissjóðirnir hafi ekki fengið upplýsingar um það frá stjórnvöldum eða Seðlabanka mikla upphæð þurfi á að halda.

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra leiða starf ríkisstjórnarinnar um að móta aðgerðarpakka um helgina, til að takast á við lausafjárvanda þjóðarinnar. Þeir munu funda með fulltrúum lífeyrissjóðanna síðar í dag.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×