Erlent

Skosk atkvæðagreiðsla um sambandið við England

Óli Tynes skrifar

Útlit er fyrir að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í Skotlandi um hvort landið eigi að lýsa yfir sjálfstæði eða halda sambandinu við England.

Það samband hefur staðið í 300 ár. Skoski þjóðarflokkurinn myndaði minnihlutastjórn eftir kosningar á síðasta ári. Sá flokkur vill sjálfstæði.

Skoski Verkamannaflokkurinn sem lengi hefur stjórnað landinu vill hinsvegar viðhalda sambandinu, sem og Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndir demokratar.

Þessir flokkar hafa til þessa ekki ljáð máls á þjóðaratkvæðagreiðslu, en hafa nú skipt um skoðun.

Þeir telja þjóðaratkvæði einu leiðina til að ljúka málinu í eitt skipti fyrir öll. Wendy Alexander leiðtogi verkamannaflokksins sagði í viðtali á BBC í Skotlandi í gær; "Ég óttast ekki dóm skosku þjóðarinnar. Drífum í þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×