Líklegt verður að teljast að Didier Drogba hafði átt að taka vítið sem John Terry endaði með að misnota í vítaspyrnukeppninni í kvöld.
Manchester United varð í kvöld Evrópumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Chelsea í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Drogba fékk að líta rauða spjaldið undir lok framlengingarinnar fyrir að ýta við Nemanja Vidic, leikmanni Manchester United.
Cristiano Ronaldo misnotaði sína spyrnu í vítaspyrnukeppninni og hefði Terry getað tryggt Chelsea sigur með því að skora úr fimmtu spyrnu Chelsea. Hann hins vegar rann til í bleytunni og skot hans geigaði.
Drogba er með betri vítaskyttum Chelsea og helsti markaskorari liðsins. Það er því langlíklegast að hann hefði tekið fimmtu spyrnu Chelsea hefði hann mátt gera það.
John Terry var algjörlega óhuggandi eftir leikinn og var tárvotur um augun er hann tók við silfurpeningnum úr hendi Michel Platini, forseta UEFA.