Lífið

Ánægðir með Íslandsför

Frank og Casper eru orðnir að hálfgerðum tískutáknum á Íslandi að mati danska blaðsins Jyllands Posten. mynd/Ólafur Rafnar Ólafsson
Frank og Casper eru orðnir að hálfgerðum tískutáknum á Íslandi að mati danska blaðsins Jyllands Posten. mynd/Ólafur Rafnar Ólafsson

Danska dagblaðið Jyllands-Posten fjallar ítarlega um ferð þeirra Klovn-bræðra, Casper Christiansen og Frank Hvam, til Íslands. Þeir félagar voru hæstánægðir með móttökurnar.

Jyllands-Posten segir að vinsældir Klovn séu það miklar að þeir Frank og Casper séu orðnir að einhvers konar tískutáknum á Íslandi. Þar er Íslendingum jafnframt þakkaður sá mikli áhugi sem önnur norðurlönd hafi sýnt þáttunum.

Í umfjöllun blaðsins segir að þótt Íslendingar geti ekki hlegið mikið um þessar mundir vegna efnahagsástandsins þá skelli þeir uppúr yfir svaðilförum Trúðanna. Tekið er viðtal við Maríu Hjálmarsdóttur sem er stofnandi Klovn-aðdáendahópsins og tvær stúlkur sem gerðu sér sérstakt far á barinn til að berja þá félaga augum.

Casper og Frank eru síðan teknir tali af vefsjónvarpi Jyllands-Posten og þar segja þeir að þessi mikli áhugi á þáttunum á Íslandi komi þeim spánskt fyrir sjónir. En þeir séu á hinn boginn ákaflega hrærðir yfir þessum viðtökum. „Við fáum ekki mikið greitt fyrir að fara svona ferðir. En það gefur okkur aftur á móti mikið að fá svona mikil og góð viðbrögð við þáttunum," segir Frank við blaðamann Jyllands-Posten þar sem hann er staddur á ónafngreindum bar í Reykjavík.

Casper er hins vegar ekki í vafa um af hverju Klovn sé svona vinsælt. „Við Frank vildum gera þætti um menn í kringum fertugt sem lífið léki við. Málið væri hins vegar að þeir kæmu sér stöðugt í einhver vandræði, væru alltaf að fokka hlutunum upp. Og það hefur hreinlega sýnt sig að þetta er frekar alþjóðlegt vandamál."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.