Erlent

Tilraunir NASA byggðar á líkum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bandaríska geimferðastofnunin NASA notar mannslík við prófanir á nýja Orion-geimfarinu sem ætlað er að flytja menn til tunglsins að nýju árið 2020. Þrjú lík voru notuð við tilraunir við Ohio State-háskólann í fyrra til þess að kanna öryggi nýrra hlífðarbúninga og sæta í geimfarinu og áhrif gríðarlegs þrýstings sem mannslíkaminn verður fyrir þegar farið snýr til baka inn í lofthjúp jarðarinnar.

Talsmenn NASA segjast einnig styðjast við árekstrarprófanadúkkur og tölvustýrð hermilíkön við prófanir á Orion-farinu en mannslíkamar séu nauðsynlegir til að kanna til hlítar áhrifin á innri líffæri og mænu geimfaranna.

„Það er viðtekin staðreynd á sviði slysalíffræði að eftirlíkingar draga ekki alltaf fram í dagsljósið allan sannleikann um raunveruleg áhrif áverka á mannslíkamann," sagði NASA í yfirlýsingu í frétt af líktilraununum sem raunar birtist fyrst á vef stofnunarinnar. „Mann langar kannski ekki til að hugsa allt of mikið út í þetta en þetta eru læknisfræðilegar tilraunir sem skipta miklu fyrir öryggi áhafna okkar," sagði Lynnette Madison hjá NASA.

Líkin voru ekki afhent geimferðastofnuninni sérstaklega en þau eru jarðneskar leifar fólks sem veitti samþykki sitt til læknisfræðilegra tilrauna á líkömum sínum eftir að það fékk hvíldina. Þar með geta hinir dauðvona alið með sér von um að komast að lokum til tunglsins - þó ekki í lifanda lífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×