Enski boltinn

Jóhannes Karl virðir ákvörðun Ólafs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl í leik með Burnley.
Jóhannes Karl í leik með Burnley. Nordic Photos / Getty Images

Jóhannes Karl Guðjónsson virðir ákvörðun Ólafs Jóhannessonar landsliðsþjálfara sem hefur ekki valið hann í landsliðið á undanförnum mánuðum.

Jóhannes Karl hefur verið tilnefndur ásamt þremur öðrum sem leikmaður septembermánaðar í ensku B-deildinni í knattspyrnu en hann leikur með Burnley og skoraði tvívegis í síðasta mánuði. Hann hefur þótt standa sig afar vel í þessum leikjum.

Landsliðið mætir Hollandi og Makedóníu um næstu helgi og í næstu viku og var Jóhannes Karl ekki valinn í liðið þrátt fyrir að hann væri að standa sig vel með Burnley.

„Það andar ekki köldu á milli mín og Óla. Þetta er bara hans ákvörðun og ég virði hana. Ég verð bara taka því að ég var ekki valinn," sagði Jóhannes Karl í samtali við Vísi.

„Ég gef enn kost á mér í landsliðið og allt opið í þeim efnum. Ég held að Óli sé á réttri leið með landsliðið og vona innilega að þeim gangi vel í þessum tveimur leikjum - ekki veitir af í kreppunni," sagði hann í léttum dúr.

Jóhannes Karl var valinn í landsliðið sem mætti Slóvakíu í mars síðastliðnum en hann afboðaði sig í þann leik. Ólafur hefur ýjað að því að það sé ástæðan fyrir því að hann hefur ekki verið valinn á ný.

„Ég gaf honum mína skýringu á þessu og hann tók henni. En það er auðvitað hans ákvörðun að velja í landsliðið," sagði hann.

Burnley er sem stendur í níunda sæti ensku B-deildarinnar en liðið vann fjóra af fimm leikjum sínum í september og gerði eitt jafntefli.

„Þetta var mjög góður mánuður og við búnir að standa okkur allir vel sem lið. Það var auðvitað gaman að skora í tveimur leikjum í röð og það mátti litlu muna að þrijða markið kæmi í næsta leik."

Jóhannes Karl hefur nú unnið sér fast sæti í byrjunarliðinu en hann átti fremur erfitt uppdráttar á síðasta keppnistímabili.

„Þetta er kærkomin viðurkenning og þjálfarinn hefur verið ánægður með mitt framlag. Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að halda mínu sæti."

Hann segir að það sé hörð samkeppni um stöður í byrjunarliðinu. „Þjálfarinn keypti þrjá nýja miðjumenn í sumar og var ekki útlit fyrir að ég yrði hans fyrsti kostur þar sem ég var keyptur áður en hann kom til félagsins. En ég hef náð að snúa þessu í minn hag og er ánægður með það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×