Innlent

Útlendingahatarar aftur á ferð

Stóru skilti merkt Svissneska þjóðarflokknum undir fyrirsögninni „Tryggjum öryggið" hefur verið komið fyrir uppi á Kjalarnesi og blasir við ökumönnum á leið að Hvalfjarðargöngum.

Skiltið er fjórir til fimm fermetrar á stærð og hefur verið fest niður kyrfilega eftir því sem myndatökumaður Stöðvar 2 sagði Vísi. Skiltið hefur að geyma áróður gegn innflytjendnum en það sýnir þrjár hvítar kindur stugga einni svartri út af sínu svæði. Skiltið er merkt SVP, Svissneska þjóðarflokknum, sem er hægriöfgaflokkur sem notið hefur vinsælda þar í landi. Á skiltinu stendur einnig „Okkar friðhelgi - mínir heimahagar".

Veggspjöld með sömu skilaboðum voru límd víða á staura og veggi í miðbænum um helgina og unnu starfsmenn framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar að því að þrífa þau af.

Friðrik Smári Björgvinsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var nýbúinn að heyra af skiltinu þegar Vísir náði tali af honum. Hann sagði ekki vitað hverjir væru þarna á ferð en að lögregla myndi rannsaka málið ef um kynþáttahatur væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×