Í dagbókarbroti Matthísar Johannessen frá 3. júlí 1998 sem hann birtir um helgina kemur fram að Davíð Oddsson hafi haft áhyggjur af fimmtán milljóna króna reikning sem ríkið fékk sent vegna læknismeðferðar forsetafrúarinnar Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur.
„Davíð hafði aftur á móti verulegar áhyggur af öðru máli. Hann sagði að það hefði komið 15 milljón króna reikningur í skrifstofu sendiherra Íslands í Washington sem fyrsta greiðsla fyrir læknismeðferð forsetafrúarinnar í Seattle. Enginn hefði minnzt á þetta einu orði og þeir Halldór Ásgrímsson vissu ekki hvernig með skyldi fara. Ef neitað yrði að greiða þá yrðu þeir úthrópaðir sem illmenni og yrðu að segja af sér, en ef greitt væri kæmi að sjálfsögðu að því að slíkar greiðslur þyrfti einnig að inna af hendi fyrir þá sjúklinga aðra, sem minna mega sín. Hann ætlar víst að láta Tryggingastofnunina kanna þetta mál til hlítar og ræða það síðan við forystumenn stjórnarandstöðunnar svo að hann sitji ekki uppi með hneykslismál að lokum.
Samfylking í þessu máli sé eina ráðið til að komast að einhverri niðurstöðu, svo óþægilegt sem þetta væri. Þetta er að sjálfsögðu á fárra vitorði eins og margt annað í stjórnsýslu okkar sem bezt er að hafa sem fæst orð um. En sendiherra Íslands í Washington, Jón Baldvin Hannibalsson, var víst fljótur að senda reikninginn heim til Reykjavíkur og vísa ákvörðunum frá sér til þeirra háu herra sem landinu stjórna."
Úr dagbók Matthísar Johannessen sem birt er á vefsvæði hans, matthias.is.