Körfubolti

Fékk gott tilboð en verður áfram í Hólminum

Hlynur Bæringsson verður áfram maðurinn í miðjunni í Hólminum
Hlynur Bæringsson verður áfram maðurinn í miðjunni í Hólminum

Landsliðsmaðurinn Hlynur Bæringsson segist fastlega reikna með því að hann spili með Snæfelli áfram næsta vetur. Vísir hefur heimildir fyrir því að Stjörnumenn hafi reynt að fá Hlyn í sínar raðir í vor.

Hlynur vildi ekki staðfesta að forráðmenn Stjörnunnar hefðu sett sig í samband, en sagðist þó hafa orðið var við áhuga frá öðrum félögum eins og svo oft áður. Hann er hinsvegar staðráðinn í að halda áfram með Snæfelli nema hann fengi hugsanlega bitastætt tilboð erlendis frá.

"Það er nokkuð ljóst að ef ég verð hérna á Íslandi, þá verð ég áfram í Hólminum nema eitthvað alveg sérstakt komi til. Maður er búinn að koma sér svo vel fyrir hérna, sveitamaðurinn," sagði Hlynur.

Hann játar að hafa fengið eitt áhugavert tilboð. "Það fékk mann aðeins til að hugsa, ég neita því ekki," sagði Hlynur. "En það er nú líka þannig að þegar menn eru búnir að gera vel við mann eins og hér í Stykkishólmi, þá finnst manni ekki endilega ástæða til að rjúka til þó eitthvað aðeins betra bjóðist," sagði Hlynur.

Hann er ekki búinn að loka á að reyna fyrir sér erlendis á ný.

"Það er eitthvað sem ég er alltaf opinn fyrir, en maður yrði þá að vanda valið. Þetta Hollands-ævintýri á sínum tíma var nú svo sem ekki ferð til fjár," sagði Hlynur léttur í bragði.

Hlynur mun leika undir stjórn hins reynda Jordanco Davitkov næsta vetur, en hann stýrði áður landsliði Makedóníu. Hann fær það verkefni að taka við af Geof Kotila sem stýrði Snæfelli tvö ár þar á undan.

"Það sjá allir mikið eftir Geof og hann kenndi okkur mikið. Hann var líklega besti þjálfari sem ég hef spilað fyrir á ferlinum með fullri virðingu fyrir öðrum og þar er á ferðinni maður sem náð hefur fínum árangri," sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×