Tónlist

Sumargleði Kima

Morðingjarnir spila í Sumargleði Kima.
Morðingjarnir spila í Sumargleði Kima.

Það er engu logið um það að Kimi Records á Akureyri er hressasta plötuútgáfa landsins um þessar mundir. Á meðan varla heyrist múkk frá öðrum útgáfum dælir Baldvin Esra hjá Kima út nýjum plötum og dreifir öðru eins. Það er því við hæfi að fjögur Kima-bönd taki höndum saman og fari um landið undir yfirskriftinni Sumargleði Kima. Túrinn byrjar á mánudaginn í næstu viku og böndin sem spila eru Benni Hemm Hemm, Morðingjarnir, Borko og Reykjavík! Stíf spilamennska verður alla næstu viku á Stokkseyri, Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði og Höfn, en síðustu tónleikarnir verða á Nasa í Reykjavík, miðvikudagskvöldið 23. júlí.

Allir tónleikarnir hefjast kl. 20 og það kostar þúsund krónur inn. Miðar eru ekki seldir í forsölu nema á síðasta kvöldið á Nasa. Þá verður Sumargleðislagið frumflutt, það er ef það verður samið í ferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.