Björn Ingi Sveinsson forstjóri Saxbygg og stjórnarmaður í Glitni segir að Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður bankans hafi ekki farið með fleipur í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi. Þá sagði Þorsteinn að boðað hefði verið til blaðamannafundar í Seðlabankanum áður en búið var að fá samþykki hjá stærstu hluthöfum bankans. Seðlabankinn sagði í yfirlýsingu fyrr í dag að samþykki hefði verið komið þegar boðað var til fundarins.
„Ég held að Þorsteinn Már sé ekki að fara með fleipur í þessu. Seðlabankastjóri verður að eiga það við sjálfan sig þegar hann reynir að bera þetta tilbaka," segir Björn Ingi sem sat stjórnarfund Glitnis í hádeginu.
Björn segir fundinn hafa verið stuttan og vill lítið tjá sig um hvað þar var rætt, enda séu stjórnarmenn bundnir trúnaði um hvað fari fram á slíkum fundum.
Aðspurður um hvenær hluthafafundur í Glitni verði boðaður segir hann að drög að því hafi verið lögð á fundinum en það skýrist með tilkynningu frá bankanum í dag eða á morgun. „Samþykktir félagsins kveða á um að boða verði til fundarins með viku fyrirvara, það verður því aldrei fyrr en í fyrsta lagi eftir viku."
Beðið er með eftirvæntingu eftir niðurstöðu hluthafafundarins en þar mun koma í ljós hvort gengið verði að yfirtökutilboði Ríkisins á 75% hlut í bankanum.