Um 400 þúsund manns hafa skrifað undir mótmælalista á netinu gegn því að listamaður frá Costa Rica verði fulltrúi lands síns á listasýningu Miðameríkuríkja í Honduras á þessu ári.
Ástæðan er sú að þegar listamaðurinn Guillermo Vargas hélt sýningu í heimalandinu var gjörningur hluti af sýningunni.
Gjörningurinn fólst í því að flækingshundur var tjóðraður í einu horni sýningarsalarins. Þar var hann látinn svelta í hel.
Vargas bannaði algjörlega að honum væri gefið að éta. Hundurinn veslaðist upp og drapst meðan á sýningunni stóð.
Dýravinir urðu að vonum reiðir og ekki bara út í Vargas. Þeim var fyrirmunað að skilja að ekki hefði einhver gripið í taumana. Starfsfólk í sýningarsalnum eða gestir.
Allavega hafa þeir nú skorið upp herör gegn Vargas á netinu.