Innlent

Um sjö milljónir í bjarnarbjörgun

Ísbjörninn sem felldur var við Hraun í júní.
Ísbjörninn sem felldur var við Hraun í júní. MYND/Valli

Útlagður kostnaður Umhverfisstofnunar vegna tilraunar til að þess að bjarga hvítabirni, sem gekk á land við Hraun á Skaga í Skagafirði um miðjan júní, nemur að minnsta kosti 6,7 milljónum. Enn er beðið eftir tveimur reikningum vegna tilraunarinnar.

Ábúendur á Hrauni urðu varir við björninn þamnn 16. júní þar sem hann vappaði um í æðarvarpinu. Ákveðið var að reyna að bjarga birninum og var kallaður til sérfræðingur frá Danmörku, Carsten Gröndahl, yfirdýralæknir dýragarðsins í Kaupmannahöfn, með sérstakt búr til þess að reyna að fanga björninni. Tilraunir til að bjarga honum fóru hins vegar út um þúfur og var hann felldur 17. júní.

Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu daginn eftir kom fram að Umhverfisstofnun yrði falið að taka saman kostnað sem til féll vegna tilraunar við að bjarga hvítabirninum. Útlagður kostnaður stofnunarinnar nemur nú þegar 6,7 milljónum að sögn Kristínar Lindu Árnadóttir forstjóra. Nær hann til ferðareikninga fyrir starfsmenn Umhverfisstofnunar sem tóku þátt í björguninni og ferðakostnaðar Carstens Gröndalh ásamt flutningi á búri hingað til lands.

Kristín Linda segir þó að þetta sé ekki endanleg tala því enn sé beðið eftir tveimur reikningum, annars vegar fyrir vinnu Gröndalhs og hins vegar vegna flutnings búrsins innan lands. Ekki liggur fyrir hvenær þeir berast en Kristín Linda segir það ekki stóra reikninga.

Þess skal getið að inni í ofannefndri tölu er ekki kostnaður lögreglu, björgunarsveita og umhverfisráðuneytisins vegna tilraunarinnar til þess að bjarga bjarndýrinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×