Íslenski boltinn

Ásmundur: Fáum ekki fálkaorðuna fyrir þetta silfur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis. Mynd/E. Stefán
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, sagði að það væri afskaplega erfitt að missa af bikarnum annað árið í röð.

Fjölnir tapaði í dag fyrir KR í úrslitum bikarkeppninnar en í fyrra tapaði Fjölnir fyrir FH.

„Það var virkilega erfitt að tapa þessum leik aftur. Það er erfitt að kyngja svona silfurverðlaunum og ég efast um að við fáum fálkaorðuna fyrir þetta silfur," sagði hann og brosti.

„En heilt yfir var þetta sanngjarn sigur hjá KR. Þetta gat svo sem dottið hvoru megin sem var. Við áttum fína spretti í fyrri hálfleik og áttum fína möguleika þá. En það vantaði lokasendinguna til að geta klárað færið."

„Í seinni hálfleik náðum við ekki góðum takti í leiknum og þeir stjórnuðu honum alfarið, þó þeir hafi ekki fengið mikið af dauðafærum. Það var heldur dauft yfirbragð yfir leiknum og maður var farinn að undirbúa sig fyrir framlenginguna þegar markið kom."

Hann segir að það hafi ekki verið ætlun Fjölnismanna að liggja svo aftarlega, sérstaklega í síðari hálfleik.

„Fyrri hálfleikur gekk ágætlega upp hvað okkar leikskipulag varðar en við ætluðum að halda boltanum betur í þeim síðari og nýta okkur svæði inn á miðjunni hjá þeim þar sem við erum vel mannaðir."

Hann segist þó vera ágætlega sáttur við sumarið hjá Fjölni.

„Ég er svo sem ekki sáttur í dag en það er vel ásættanlegt fyrir Fjölni að vera í efri hluta deildarinnar og í bikarúrslitum. Engu að síður ætluðum við okkur titilinn í ár fyrst við töpuðum honum í fyrra. Við tökum þetta bara á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×