Körfubolti

Setur tóninn fyrir tímabilið

Benedikt spáir harðri keppni í úrvalsdeildinni í vetur
Benedikt spáir harðri keppni í úrvalsdeildinni í vetur Mynd/Stefán

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR segir æsilegan úrslitaleik hans manna við Grindavík í Powerade bikarnum í dag hafa sýnt hvað koma skal í deildinni í vetur.

"Þetta var betri leikur en ég átti von á, því liðin eru oft ekkert kominn í svona gott stand á þessum tímapunkti á mótinu. Ég var ekkert allt of sáttur við varnarleikinn hjá okkur en það eru auðvitað frábærir sóknarmenn í báðum þessum liðum. Þessi leikur var bara frábær byrjun á tímabilinu og sýnir hvað koma skal í deildinni í vetur," sagði Benedikt í samtali við Vísi.

Margir hafa gengið svo langt að tala um að KR eigi titilinn vísan í Iceland Express deildinni í vetur eftir að hafa fengið landsliðsmenn eins og Jón Arnór Stefánsson og Jakob Sigurðarson til liðs við sig.

Benedikt segir leikinn í kvöld bera þess vitni að hans menn muni fá harða samkeppni í baráttunni um titilinn og það frá mörgum liðum.

"Það er mikið búið að vera að tala um okkur KR-inga eftir að við fengum þá Jón Arnór og Jakob til okkar, en það erum bara fimm eða sex lið í þessari deild sem eiga eftir að verða gríðarlega sterk í vetur. Grindvíkingarnir voru líka að sýna það í kvöld að þeir erum með frábæran hóp," sagði Benedikt og hrósaði Jason Dourisseu sem skoraði sigurkörfuna í lokin.

"Ég vissi það þegar ég fékk Jason í liðið hjá okkur að hann væri góður liðsmaður og fínn varnarmaður, en það hefur komið á daginn að hann er fínn skotmaður líka og mér leið ekkert illa að sjá hann taka síðasta skotið. Hann hefur verið upp og ofan í stigaskorun þessi strákur en þetta er maður sem þröngvar aldrei neinu og tekur ekkert til sín. Hann lætur leikinn bara koma til sín og er óeigingjarn eins og hinir strákarnir í liðinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×