Innlent

Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr

Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr og hefur þróunin í þá átt verið sérstaklega ör á undanförnum áratug. Sem dæmi má nefna að á þeim tíma hefur Vatnajökull rýrnað um þrjú prósent og Langjökull um átta prósent.

Þessar upplýsingar komu frá á Raunvísndaþingi sem haldið var um helgina. Helgi Björnsson, rannsóknarprófessor á raunvísindadeild Háskóla Íslands, segir að síðustu tíu árin hafi Vatnajökull hopað um einn metra á ári að meðaltali. Í magni er hér um 80 rúmkílómetra að ræða.

Hvað Langjökul varðar er er bráðnunin enn meiri en rannsóknir sýna að hann hefur tapað átta prósenum af umfangi sínu á fyrrgreindu tímabili.

Þeir sem leið eiga um Þórsmörk á hverju ári hafa vel getað sé þróunina á Gígjöklinum sem gengur niður á Eyjafjallajökli. Hann hefur hopað um heilann kílómetra á síðustu tíu árum.

Segir jökla ekki hverfa á næsta áratug

Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Jöklarannsóknarfélagsins, segir að ekki sé rétt sem fram kemur í frétt á Vísi um að jöklar heimsins gætu horfið á næsta áratug. „Þetta á kannski við um einhverja smájökla í Evrópu en ekki annars staðar," segir Magnús Tumi.

Magnús bendir á að samkvæmt því sem fram kom í máli Helga Björnssonar á Raunvísindaþinginu muni það taka 100 til 200 ár fyrir íslensku jöklana að hverfa alveg. Er þá miðað við að þróunin verði sú sama og verið hefur undanfarin tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×