Erlent

Minnismerki um fyrsta geimhundinn, tíkina Laiku, afhjúpað

Minnismerki um fyrsta geimhundinn, tíkina Laiku, hefur verið afhjúpað, ríflega 50 árum eftir að Laiku var skotið út í geiminn. Ferð hennar var undanfari mannaðra geimferða Sovétmanna

Minnismerkið er í lítil stytta af hundi sem stendur á eldflaug. Það stendur fyrir utan rannsóknarstöð á vegum hersins í Moskvu en þar var Laika undirbúin fyrir ferð sína út í geiminn þann 3. nóvember árið 1957.

Lítið var vitað um áhrif geimferð á lifandi verur þegar Laiku var skotið á loft. Margir töldu að ómögulegt væri að lifa sjálft geimskotið af, hvað þá kringumstæðurnar þegar komið væri á braut um jörðu.

Sovéskum geimverkfræðingum til mikillar gleði amaði ekkert að Laiku þegar hún var komin á braut um jörðu þar sem hún sveif um í sjö daga áður en hún var svæfð. Á þeim tíma réðu Sovétmenn ekki yfir tækni til að ná henni lifandi aftur til jarðar.

Margar sögur eru til um hvernig Laika var valin til geimferðarinnar. Sumir sögðu að það væri sökum þess hve falleg hún væri en staðreyndin er sú að hún var valin úr hópi flækingshunda sem safnað hafði verið saman til þessa verkefnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×