Enski boltinn

Hicks og Gillett höfnuðu tilboði DIC

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tom Hicks, til vinstri, og George Gillett á leik Liverpool og Barcelona í Meistaradeildinni í fyrra.
Tom Hicks, til vinstri, og George Gillett á leik Liverpool og Barcelona í Meistaradeildinni í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Eftir því sem fréttastofa AP segir hafa eigendur Liverpool hafnað tilboði fjárfestingarfélagsins DIC frá Dubai í félagið.

Framkvæmdarstjóri DIC staðfesti í morgun að félagið ætti í viðræðum við þá George Gillett og Tom Hicks, eigendur Liverpool. BBC greindi svo frá því að félagið hefði boðið 400 milljónir punda í Liverpool og að þeir Hicks og Gillett hefðu sólarhring til að svara tilboðinu.

Þær fregnir voru svo bornar til baka af talsmanni DIC. En síðar bárust þær fregnir að bandarísku eigendurnir hefðu hafnað tilboði DIC.

AP heldur fram að Hicks hafi umsvifalaust hafnað tilboðinu og að Gillett hafi hafnað því á þeim forsendum að hlutur hans væri of lágt verðmetinn.

Samkvæmt þessu hefur Hicks staðið við þau orð sem hann lét falla í síðustu viku að hann ætlaði ekki að selja sinn hluta í félaginu.

Hicks og Gillett keyptu Liverpool í mars í fyrra fyrir 218,9 milljónir punda en sögusagnir hafa verið á kreiki þess eðlis að þeim hafi sinnast. Hvorugur er þó í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Reynist þetta rétt verður væntanlega næsta mál hvort að Hicks muni gera tilraun til að kaupa hlut Gillett í Liverpool.


Tengdar fréttir

Eigendum Liverpool settir afarkostir

Fjárfestingarfyrirtækið DIC frá Dubai hefur gefið eigendum Liverpool, Tom Hicks og George Gillett, sólarhring til að ganga að tilboði þeirra í klúbbinn.

DIC: Engin tímamörk

Talsmaður fjárfestingarfélagsins DIC frá Dubai hafnaði í dag þeim fregnum að eigendur Liverpool hefðu sólarhring til að svara tilboði félagsins í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×