Matthias Lanzinger, skíðakappi frá Austurríki, þarf að gangast undir aðgerð í dag þar sem neðsti hluti vinstri fótar hans verður fjarlægður.
Lanzinger keppti í risasvigi á Olympiabakken-brautinni í Noregi um helgina og missti fótanna seint í brautinni með þeim afleiðingum að hann hafnaði í öryggisnetinu.
Eitthvað hefur losunarbúnaðurinn á vinstra skíðinu hans bilað þar sem það losnaði ekki af og hlaut Lanzinger opið beinbrot á fætinum.
Hann hefur gengist undir nokkrar aðgerðir á sjúkrahúsi í Osló undanfarinn sólarhring.
„Þar sem það urðu skemmdir á líkamsvef sem ekki var hægt að gera við er óhjákvæmilegt að fjarlægja hluta fótarins," sagði í yfirlýsingu frá austurríska skíðasambandinu.