Innlent

Fjármálaráðherra hefur íhugað afsögn

Árni Mathiesen.
Árni Mathiesen.

Árni Mathiesen segist hafa íhugað að segja af sér sem fjármálaráðherra vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga. Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag fyrr í kvöld þar sem Árni var gestur Sölva Tryggvasonar.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, er einn þeirra sem farið hefur fram á afsögn Árna og Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. 

Árni telur óskynsamlegt að fram fari þingkosningarnar á næstunni. ,,Í kosningum verðum við vegin og metin á grundvelli þess sem hér hefur gerst. Ég held að það þurfi enginn að velkjast í vafa með það.

,,Já, ég hef reyndar gert það," sagði Árni þegar hann var spurður hvort hann hefði íhugað að segja af sér sem ráðherra. ,,Það er dálítíð óhjákvæmilegt þegar svona stórir hlutir gerast að maður fari yfir sinn hlut í þessu og þá sérstaklega þau ráðuneyti sem ég hef stýrt á þessum tímabili."

Aftur á móti er það niðurstaða Árna að halda áfram og ekkert hafi misfarist í fjármálaráðuneytinu. ,,Þegar ég fer í þessa íhugun kemst ég að þeirri niðurstöðu að í fjármálaráðuneytinu, þar sem ég hef verið síðan 2005, er kannski að finna einn þann hlut sem mun hjálpa okkur hvað mest í gegnum þessa krísu og það er góð staða ríkisfjármálanna. Við vorum áður en þetta gerðist skuldlaus. Ef ríkissjóður hefði verið mjög skuldugur hefði staða okkar verið miklu erfiðari í dag en hún verður."

Viðtal Sölva við Árna er hægt að nálagst hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×