Innlent

Aðdragandinn að kaupunum stuttur

Aðdragandinn að kaupum ríkisins í Glitni er stuttur en bankinn óskaði fyrst eftir aðstoð Seðlabankans í síðustu viku.

Á fundinum í Seðlabankanum í morgun sagði Davíð stjórnendur Glitni hafa leitað til Seðlabankans eftir aðstoð vegna þeirrar stöðu sem bankinn var kominn í.

Geir H. Haarde forsætisráðherra fundaði á laugardaginn með bankastjóra Seðlabankans og efnahagsráðgjöfum í stjórnarráðinu. Geir sagði eftir fundinn að það hefði ekki verið krísufundur heldur hafi hann verið að setja sig inn í hvað hefði gerst meðan hann var á ferð sinni í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Í gær fundaði bankastjórn Seðlabankans aftur með forsætisráðherra og þá líka fjármálaráðherra. Eftir þann fund var Geir spurður hvort yfirlýsinga væri að vænta um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og sagði Geir ekki eiga von á því.

Þegar líða tók á kvöldið boðaði Davíð Oddsson seðlabankastjóri nokkra ráðherra, fjármálaráðgjafa og formenn stjórnarandstöðuflokkanna á sinn fund í Seðlabankanum. Mikil leynd hvíldi yfir fundinum. Fundarmenn reyndu að koma sér burt án þess að þurfa að ræða við fréttamenn og enginn vildi segja neitt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×