Erlent

Huliðshjálmur á næsta leiti

Vísindamenn við Berkley háskóla í Kaliforníu segjast nú skrefi nær að þróa aðferðir til að gera fólk ósýnilegt. Í grein sem birtist í tímaritunum Nature og Science segjast þeir hafa þróað efni sem getur sveigt ljós framhjá þrívíðum hlutum og þar með látið þá hverfa.

Að sögn vísindamannanna sveigir efnið ljósið á svipaðan hátt og vatn rennur um stein. Það hvorki tekur í sig né endurvarpar ljósi, og því sér áhorfandinn einungis ljósið sem er fyrir aftan „ósýnilega" hlutinn. Efnið er ekki til í náttúrunni, en vísindamennirnir hafa framleitt það í örstærð. Þeir segja að í framtíðinni væri hægt að framleiða efnið í stærra sniði sem gæti dugað til að fela fólk.

Rannsóknin er kostuð af yfirvöldum í Bandaríkjunum, sem vonast til að nota tæknina í hernaði í framtíðinni, þar sem heilu skriðdrekarnir gætu horfið augum óvinanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×