Innlent

Hart deilt á saksóknara í Kompáss - árásarmálinu

Verjandi Benjamíns Þórs Þorgrímssonar, sem ákærður hefur verið fyrir að ganga í skrokk á Ragnari Magnússyni, eins og frægt varð þegar fréttaskýringaþátturinn Kompás náði atvikinu á myndband, sakar lögreglu um að hafa klúðrað ákærunni á hendur skjólstæðingi sínum. Hinn málsaðilinn, Ragnar Magnússon, tekur í svipaðan streng og segir að lögregla hafi týnt ákærum sem hann lagði fram gegn Benjamíni í kjölfarið á því að Benjamín réðst að honum.

Kastljósið fjallaði um málið í kvöld og þar kom fram að hótanir Benjamíns í garð Ragnars muni aldrei fara fyrir dóm. Lögregla gaf út tvær ákærur í málinu sama daginn en í þeirri fyrri er ekkert minnst á hótanir heldur aðeins talað um líkamsárás. Verjandi Benjamíns gerði athugasemdir við þetta og hefur verið ákveðið að fyrr ákæran standi.

Ragnar Magnússon, sem Benjamín réðst á, átelur lögreglu einnig fyrir mistök í rannsókninni. Hann segist hafa lagt fram fleiri kærur á hendur Benjamíni sem hvergi sé að finna í ákærunni.

Jón H.B. Snorrason, saksóknarinn í málinu sagði í samtali við Kastljósið að umdeilanlegt sé hvort nauðsynlegt sé að ákæra fyrir hótanirnar enda komi þær skýrt fram í myndbandinu. Þessu vísar hæstaréttarlögmaðurinn Brynjar Níelsson hins vegar á bug og segir fráleitt. Ef ekki sé ákært fyrir hótanir sé ekki hægt að dæma manninn fyrir hótanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×