Erlent

Dagblöðin í sókn í Danmörku

Óli Tynes skrifar frá Svíþjóð

Síðan fríblöðunum fjölgaði í Danmörku með tilkomu Nyhedsavisen, sem hin íslenska Dagsbrún gefur út , hefur upplag áskriftarblaðanna minnkað og tekjur sömuleiðis. Nú virðist hilla í viðsnúning.

Í febrúar síðasliðnum fjölgaði lesendum frá sama mánuði í fyrra. Jyllands-Posten, Extra Bladet, Politiken og BT bættu öll við sig.

Nyhedsavisen er ennþá mest lesna blað Danmerkur með 617 þúsund lesendur. Þar á eftir kemur 24timer með 565 þúsund lesendur.

Næst í röðinni er svo þriðja fríblaðið Metro-Xpress. Jyllands Posten hefur bætt við sig fjórum prósentum miðað við febrúar í fyrra. Politiken hefur bætt við sig fimm prósentum, Extra Bladet 16 og BT heilum 20 prósentum.

Það eru þó ekki bara gleðilegar tölur hjá JP Politikens hus sem hóf útgáfu á fríblaðinu 24timer til þess að mæta samkeppninni frá Nyhedsavisen. Reksturinn fór úr 204 milljóna króna hagnaði árið 2006 í tap upp á rúmlega 1,6 milljarða tap árið 2007.

Þar var eingöngu um að kenna kostnaði við 24timer. Menn eru þó brattir þar á bæ. Lars Munch, framkvæmdastjóri býst við að fríblaðið fari að skila hagnaði þegar á þessu ári. Eins og á Nyhedsavisen hefur verið gripið til ýmissa sparnaðarráðstafana á 24timer undanfarnar vikur. Munch hefur fulla trú á að það dugi til að koma blaðinu réttu megin við strikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×