Innlent

Áfallahjálpin er langtíma verkefni

Sigurður Guðmundsson, landlæknir.
Sigurður Guðmundsson, landlæknir.

Um sextíu manns hafa leitað til sérfræðinga um áfallahjálp á skjálftasvæðunum í dag og í gær. Sum tilfellin eru alvarleg.

Þá hefur á annað hundrað manns mætt á kynningarfundi Rauða krossins um sálræna fylgikvilla áfalla. Sigurður Guðmundsson Landlæknir segir að vikur eða mánuðir geti liðið þar til sálræn áhrif jarðskjálftans koma fram.

Hingað til hafa hjálparstörfin á skjálftasvæðunum snúist um að koma slösuðum til aðstoðar og skjóta skjólshúsi yfir þá sem þurftu að yfirgefa hús sín.

En nú verður aukin áhersla lögð á mál eins og tryggingamál sem og andlega þáttinn sem er ekki síst mikilvægur.

Sigurður og aðrir sem komið hafa að hjálparstörfum taka sérstaklega fram hversu vel íbúar á skjálftasvæðunum bera sig eftir skjálftann.

Hins vegar er eðlilegt að fram komi einkenni eins og ótti eða kvíði, vikum eða jafnvel mánuðum eftir skjálftann.

Sérstakt áfallateymi hefur verið myndað sem verður með aðstöðu í nýuppsettum þjónustumiðstöðum í Hveragerði og á Selfossi. Þar verða heilbrigðismenntaður starfsmenn auk presta og sjálfboðaliða Rauða Krossins og getur fólk leitað þangað vilji það leita sér aðstoðar eða ráðgjafar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×