Katie Holmes gerði stormandi lukku þegar hún tók að sér gestahlutverk í bandarísku grínþáttunum Eli Stone á dögunum. Þættirnir fjalla um samnefndan lögfræðing sem greinist með slagæðargúlp í heila og fer fljótlega að sjá ýmiss konar sýnir, sem margar hverjar virðast tengjast framtíðaratburðum. Holmes leikur einnig lögfræðing í þáttunum og tekur þátt í dans- og söngatriði.
Matt Letcher, meðleikari hennar, kveðst viss um að Holmes væri meira en velkomin aftur, ef henni byðist annað tækifæri til þess, og segir leikkonuna hina viðkunnanlegustu. „Hún er blíðasta manneskja í heiminum, jarðbundin og þægileg. Hún er bara venjuleg manneskja. Ég hitti dóttur hennar og eiginmaður hennar var á tökustað. Það var frábært,“ segir Letcher.