Íslenski boltinn

Konan fékk leiða á að hafa mig heima

Kári Steinn Reynisson
Kári Steinn Reynisson

Skagamenn eygja veika von um að forðast fall úr Landsbankadeildinni. Þeir unnu aðeins sinn annan leik í sumar gegn Val á dögunum. Þar fór á kostum gamla brýnið Kári Steinn Reynisson sem hefur tekið skóna niður úr hillunni líkt og Pálmi Haraldsson.

„Það kom mér á óvart hvað það var létt yfir mannskapnum þó svo að ástandið væri eins og það er. Það kveikti í mér að gera þetta af einhverri alvöru. Ég ætlaði ekkert að spila strax, var meira að hugsa um að mæta á æfingar og reyna að létta undir móralinn. Svo eru hinir svo lélegir að ég komst beint í liðið," sagði hinn 34 ára gamli Kári Steinn léttur.

Það var ekki að beiðni bræðranna, Arnars og Bjarka, sem Kári Steinn ákvað að mæta aftur á æfingar og hjálpa félaginu sínu.

„Ég hafði aðeins verið að spá í þetta og ákvað svo að kíkja því konan var komin með leiða á að hafa mig heima. Ég var farinn að skipta mér af hlutum sem ég á ekkert að skipta mér af," sagði Kári Steinn á gamansömum nótum.

„Ég var nú ekki búinn að sakna fótboltans mikið og var mjög sáttur í vor með að hafa allan þennan frítíma. Svo þegar grasið fór að grænka meira fékk maður aðeins fiðring. Svo var í raun ekkert tilefni til að koma aftur og Gaui [Guðjón Þórðarson] var allt of stoltur til þess að tékka á manni enda hafði ég sagt honum að ég væri hættur."

Kári Steinn starfar á daginn í Landsbankanum og Pálmi hjá Glitni. Það liggur því beinast við að spyrja hvort það sé svona leiðinlegt að telja peninga að menn þurfi að byrja aftur í boltanum?

„Nei, það er nú ekki alveg svo," sagði Kári og hló. „Við Pálmi höfðum verið að halda okkur í formi með gömlum jöxlum í fótbolta tvisvar í viku. Það er annars mjög gaman að vera byrjaður aftur og ég nýt þess að spila. Það er ekkert stress á okkur þrátt fyrir vonda stöðu og mórallinn góður," sagði Kári Steinn en er hann kominn til að vera?

„Ég veit það ekki og er lítið að spá í það. Ætla að klára þetta sumar og sjá svo til. Ég ákvað síðast að taka mér frí fram að áramótum og naut þess mjög vel. Ég ákvað því að láta gott heita þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×