Breski bankinn Barclays afskrifaði 1,7 milljarð punda úr bókum sínum vegna niðursveiflu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum á fyrsta ársfjórðungi. Þetta jafngildir 253 milljörðum íslenskra króna. Bankinn birtir uppgjör sitt fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins á næstu dögum og er reiknað með því að það verði nokkuð verra en á sama tíma í fyrra.
Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir forsvarsmönnum bankans að þótt aðstæður á mörkuðum hafi sett mark sitt á afkomu bankans þá muni hann skila hagnaði.
Staða bankans þykir ágæt enda hefur hann ekki farið í hlutafjárútboð til að bæta í pyngjuna líkt og nokkrir landar þeirra hafa gert í skugga lausafjárþurrðarinnar, að sögn BBC.